Félög í eigu sveitarfélaga
Lánasjóðurinn lánar til félaga í eigu sveitarfélaga, hvort sem er til félaga að fullu í eigu sveitarfélags, í samvinnu eða hlutaeign annara sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila.
Lánasjóðurinn setur skilyrði að sveitarfélag eða sveitarfélög ábyrgist lán félaga sinna, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Ábyrgðin fellur úr gildi ef eignarhaldið færist yfir til einkaaðila. Komi til þess að selja eigi félag í eigu sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila að hluta eða öllu leyti til einkaaðila og Lánasjóðurinn hefur lánað til þess félags, þarf að semja um endurgreiðslu lánsins áður en slík eigendabreyting getur átt sér stað.
Heimild til að gangast í ábyrgðir - 1. mgr. og 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Sveitarfélag getur veitt einfalda ábyrgð til tryggingar á lánum stofnana og fyrirtækja sem það á að öllu leyti, enda sinni þær verkefnum sem teljast til lögákveðinna verkefna sveitarfélaga.
Sveitarfélag getur einnig veitt einfalda ábyrgð til tryggingar á lánum stofnana og fyrirtækja sem það á og rekur í samvinnu við önnur sveitarfélög eða aðra opinbera aðila. Innbyrðis skal ábyrgð eigenda skiptast í hlutfalli við eignarhlut. Skilyrði er að viðkomandi lögaðili sé að fullu í eigu opinberra aðila, að trygging sé bundin við lántöku vegna lögákveðins verkefnis sveitarfélaga og að allir eigendur ábyrgist lán í samræmi við eignarhlut sinn. Ábyrgð fellur úr gildi ef lögaðili færist að einhverju leyti í eigu einkaaðila.
Sveitarfélag má ekki ganga í ábyrgðir vegna annarra skuldbindinga en greinir í 1. og 2. mgr. Prókúruhafa sveitarfélags er þó heimilt fyrir þess hönd að ábyrgjast með framsalsáritun greiðslu viðskiptaskjala sem sveitarfélagið hefur eignast á eðlilegan hátt í tengslum við daglegan rekstur þess.
Lánasjóðurinn setur einnig skilyrði um að sveitarfélag eða sveitarfélög setji að veði tekjur sínar fyrir lánum til félaga í þeirra eigu, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 68.gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Veð í tekjum - 2. mgr. 68. gr sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011
Sveitarfélag má ekki veðsetja öðrum tekjur sínar. Ekki heldur fasteignir eða aðrar eignir sem það á og eru nauðsynlegar til að lögboðin verkefni sveitarfélags verði rækt, sbr. 67. gr. Aðrar eignir má veðsetja til tryggingar lánum sem sveitarfélag tekur til eigin þarfa og heildareignir sveitarfélags standa til tryggingar skuldbindingum þess.
Þrátt fyrir 1. mgr. getur sveitarfélag veitt Lánasjóði sveitarfélaga ohf. veð í tekjum sínum vegna lána sem það tekur hjá sjóðnum og vegna ábyrgða sem það veitir honum skv. 1. og 2. mgr. 69. gr.